Kírópraktík
Kírópraktor greinir og veitir meðferð við stoðkerfisvandamálum
hjá einstaklingum á öllum aldri og hægt er að
aðlaga meðferðina að hverjum og einum.
Fyrsta tíma er vandamálið greint út frá ítarlegu viðtali og skoðun
og svo er gert meðferðarplan byggt á þeirri niðurstöðu.
Fyrsti tíminn er lengri svo að hægt sé að taka sér góðan tíma
til að fara yfir málin.
Farið er yfir staðsetningu verkja, líkamsstöðu, líkamsbeitingu,
verkjamynstur, hreyfigetu, mögulega orsök, fyrri sögu um verki,
aðra sjúkdóma og margt fleira sem kírópraktorinn byggir greininguna á.
Við skoðun eru framkvæmd ýmis próf til að kanna hreyfingu liða,
taugapróf og vöðvar þreyfaðir og skoðaðir. Kírópraktorar hafa
réttindi til að taka röntgenmyndir og lesa úr þeim.
Í fyrsta tíma er metin þörf á myndgreiningu en þó má taka fram
að myndgreining er ekki alltaf nauðsynleg á undan meðferð.
Að fyrsta tíma loknum hefst meðferðarferlið sem samanstendur af liðlosun eða hnykkmeðferð, losun um stífa vöðva eða aðra mjúkvefi með þrýstimeðferð, nuddi, teygjum eða jafnvel nálum, ráðleggingum um líkamsbeitingu og leiðbeiningum um heimaæfingar svo eitthvað sé nefnt. Lengd meðferðartímans ræðst af greiningu, en algengur fjöldi endurkoma eru 4-8 skipti, en getur þó bæði verið færri eða fleiri.
Algeng vandamál sem kírópraktorar fást við eru t.d.
-
Hverskonar bakverkir með eða án leiðni
-
Brjósklos,
-
Höfuðverkir,
-
Vöðvabólga,
-
Óþægindi í kjálka,
-
Verkir eða tak í rifjum,
-
Verkir í öxlum eða mjöðmum,
-
Óheppileg líkamsstaða og stífleiki af einhverju tagi.
-
Kírópraktorar geta hjálpað ungabörnum sem eru t.d. með uppáhalds hlið og vilja bara horfa í aðra áttina, og margt margt fleira
Hægt er að bóka tíma hjá Aldísi hér: https://noona.is/kiropraktikselfossi
Kírópraktorar eru með 5 ára háskólamenntun, auk eins árs starfsnáms, sem miðar að þekkingu á stoðkerfi og taugakerfi. Kírópraktor hefur víðtæka þekkingu á öllu stoðkerfinu og taugakerfinu en sérstök áhersla er á hryggsúluna.
Kírópraktor er löggilt heilbrigðistétt sem heyrir undir Landlæknisembættið og starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfstéttir. Kírópraktorum ber skylda til að halda skráningu yfir allar upplýsingar og meðferðir og varðveita þær samkvæmt lögum. Kírópraktorafélag Íslands heldur siðareglur fyrir kírópraktora og má nálgast upplýsingar um þær inná heimasíðu félagsins.